Sílemaðurinn snýr aftur í úrvalsdeildina

Ben Brereton Díaz fagnar marki í landsleik með Síle ásamt …
Ben Brereton Díaz fagnar marki í landsleik með Síle ásamt Arturo Vidal. AFP/Martin Bernetti

Enska knattspyrnufélagið Southampton hefur keypt síleska landsliðsmanninn Ben Brereton Díaz af Villarreal á Spáni fyrir 6,5 milljónir punda.

Hann snýr því aftur í ensku úrvalsdeildina en þar lék hann með Sheffield United sem lánsmaður seinni hluta tímabilsins og skoraði sex mörk í fjórtán leikjum þó lið hans sæti á botni deildarinnar.

Hann hefur samið við Dýrlingana til fjögurra ára en Southampton sneri aftur í úrvalsdeildina í vor eftir árs fjarveru.

Díaz er 25 ára gamall sóknarmaður sem fæddist í Stoke á Englandi og lék með Nottingham Forest og Blackburn áður en han nfór til Spánar. Þá spilaði hann með yngri landsliðum Englands en valdi síðan að leika fyrir Síle, land móður sinnar, og hefur þar skorað sjö mörk í 33 landsleikjum.

Southampton keypti einnig japanska miðjumanninn Kuryu Matsuki frá FC Tokyo fyrr í dag en lánað hann til Göstepe í Tyrklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert