Chelsea hefur bannað Conor Gallagher að æfa með aðalliði félagsins þar sem Englendingurinn neitar að skrifa undir nýjan samning. Chelsea hefur samþykkt tilboð í miðjumanninn frá Atletico Madrid.
Samningur Gallagher rennur út næsta sumar og Chelsea hefur ekki í hyggju að láta hann fara frítt á næsta ári. Gallagher var í lykilhlutverki á miðjunni á síðasta tímabili og byrjaði 37 af 38 leikjum liðsins.
Gallagher er talinn vilja samning sem jafnast á við átta ára samning Moises Caicedo sem gekk til liðs við Lundúnarliðið frá Brighton síðasta sumar en ekki hefur náðst samkomulag milli leikmannsins og félagsins.
Þegar Chelsea liðið snýr aftur úr æfingaferð sinni til Bandaríkjanna mun Gallagher því ekki æfa með liðinu.