Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund staðfesti í morgun að þýski landsliðsmaðurinn Niclas Füllkrug hefði yfirgefið liðsfélaga sína í morgun til að fara til viðræðna við annað félag.
Sky Sports skýrði frá því í gær að von væri á Füllkrug til London til að gangast undir læknisskoðun hjá West Ham. Félögin væru búin að ná samkomulagi um kaupverðið sem sé 27,5 milljónir punda fyrir utan bónusgreiðslur.
Samningurinn verði til þriggja ára með möguleika á árs framlengingu.
Füllkrug er 31 árs gamall sóknarmaður sem kom inn í þýska landsliðið fyrir aðeins tveimur árum en hefur slegið í gegn og skorað 13 mörk í 21 landsleik. Hann skoraði 12 mörk fyrir Dortmund í þýsku deildinni síðasta vetur, á sínu fyrsta tímabili þar, en hafði þar á undan skorað 45 mörk í 90 deildaleikjum fyrir Werder Bremen.