Stjóri Stefáns hættur eftir fyrsta deildarleikinn

Ryan Lowe er hættur sem knattspyrnustjóri Preston.
Ryan Lowe er hættur sem knattspyrnustjóri Preston. Ljósmynd/Preston

Ryan Lowe er hættur sem knattspyrnustjóri Preston North End eftir 2:0-tap í fyrsta leik tímabilsins í B-deildinni gegn Sheffield United.

Stefán Þórðarson kom til liðsins frá Silkeborg í sumar og var í byrjunarliði í leiknum síðastliðinn föstudag og spilaði 72 mínútur.

„Tíma mínum er lokið hjá Preston eftir frábær tvö og hálft ár. Ég hef hitt frábært fólk og þjálfað frábæra leikmenn, bæði núverandi og fyrrverandi. 

Ég held að núna sé rétti tíminn fyrir félagið að halda í aðra átt. Ég hef sagt það frá því ég kom fyrst til liðsins að ef ég get ekki farið með liðið lengra þá læt ég að annan hafa starfið og það er það sem ég er að gera,“ sagði Lowe.

Í tilkynningu liðsins kom fram að þetta væri sameiginleg ákvörðun en Mike Marsh stýrir liðinu tímabundið í næstu leikjum ásamt Peter Murphy og Ched Evans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert