Velski knattspyrnumaðurinn Tom Lockyer, fyrirliði Luton Town, hefur hafið æfingar með liðinu að nýju, átta mánuðum eftir að hann fór í hjartastopp í leik með því gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í desember síðastliðnum.
Lockyer, sem er 29 ára, var í hjartastoppi í þrjár mínútur áður en læknateymum liðanna tveggja tókst að fá hjarta hans til að slá að nýju. Eftir það var hjartagangráður græddur í varnarmanninn.
Hann hafði hnigið niður í leik með Luton fyrr á síðasta ári, í maí, en fékk grænt ljós á að æfa og spila síðar um sumarið enda ekki um jafn alvarlegt tilvik að ræða líkt og í desember.
Í samtali við Sky Sports í febrúar síðastliðnum sagðist Lockyer ekki vita hvort hann gæti spilað knattspyrnu á ný en vildi ekki útiloka það.