Fer aðeins fyrir „ofurstjörnupeninga“

Marc Guéhi í leik með Englandi á EM 2024 í …
Marc Guéhi í leik með Englandi á EM 2024 í Þýskalandi. AFP/Kirill Kudryavtsev

Steve Parish, meðeigandi og formaður enska knattspyrnufélagsins Crystal Palace, segir að félagið muni ekki selja enska miðvörðinn Marc Guéhi nema fyrir háa upphæð.

Guéhi lék afar vel fyrir enska landsliðið á EM 2024 í sumar er liðið hafnaði í öðru sæti og hefur Newcastle United mikinn áhuga á því að festa kaup á honum.

„Við myndum vilja halda honum. Hann er með verðmiða og það gætu komið upp aðstæður þar sem við íhugum að selja hann.

Einhver kallaði hann ofurstjörnu þannig að eitthvað félag þarf að greiða ofurstjörnupeninga fyrir hann,“ sagði Parish í samtali við BBC Sport.

Þurfa að gera okkur erfitt fyrir

Newcastle hefur lagt fram þrjú tilboð í Guéhi og greina enskir fjölmiðlar frá því að nýjasta tilboðið hljóði upp á 60 milljónir punda.

„Ef við horfum raunsætt á þetta er hann enskur, 24 ára gamall og stórkostlega hæfileikaríkur þannig að einhver þarf að gera okkur erfitt fyrir.

Sem stendur er þetta ekki erfitt fyrir okkur.  Nákvæmlega núna verður hann áfram hjá Crystal Palace en þetta er ekki ómögulegt,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert