Haaland um Cucurella: „Fyndinn náungi“

Marc Cucurella og Erling Haaland í leiknum í gær.
Marc Cucurella og Erling Haaland í leiknum í gær. AFP/Adrian Dennis

Norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland, sóknarmaður Manchester City, skaut létt á spænska varnarmanninn Marc Cucurella, leikmann Chelsea og Evrópumeistara með Spáni, eftir 2:0-sigur Man. City á Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Cucurella fagnaði Evrópumeistaratitlinum með Spáni með því að syngja lag um sjálfan sig þar sem Haaland kemur við sögu.

„Haaland, þú ættir að skjálfa á beinunum því Cucurella er að koma!“ hljómar söngurinn sem spænski bakvörðurinn söng í fagnaðarlátunum með landsliði sínu.

Hann gat ekki stöðvað Haaland þegar hann skoraði fyrra mark Man. City í gær og spurði norski fjölmiðlamaðurinn Jan Åge Fjørtoft landa sinn út í lagið:

„Hann er fyndinn náungi. Á síðasta tímabili bað hann um að fá treyjuna mína og núna í sumar syngur hann lag um mig,“ sagði Haaland í samtali við Viaplay.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert