Carragher: Chelsea verður að hætta að kaupa leikmenn

Enzo Fernández fylgist með Christopher Nkunku í leik Chelsea gegn …
Enzo Fernández fylgist með Christopher Nkunku í leik Chelsea gegn Manchester City um helgina. AFP/Adrian Dennis

Jamie Carragher, sparkspekingur hjá Sky Sports, vandaði enska knattspyrnufélaginu Chelsea ekki kveðjurnar þegar rætt var um karlaliðið í sjónvarpsþættinum Monday Night Football í gærkvöldi.

Chelsea hefur fengið til sín 39 leikmenn á aðeins rúmum tveimur árum og hafa flestir þeirra fengið mjög langa samninga sem eru á bilinu sjö til níu ár. Sem stendur er liðið með geysilega stóran leikmannahóp en hann samanstendur af 39 leikmönnum.

„Chelsea verður bara að hætta að kaupa leikmenn og leikmenn verða að hætta að semja við Chelsea. Ég veit ekki af hverju þetta er svona. Ef ég væri leikmaður, af hverju ætti maður að semja við Chelsea?

Eina ástæðan fyrir því væri að umboðsmaðurinn þinn gæti sagt: „Við erum að fá sjö ára samning á góðum launum, það eru gulltryggð laun í sjö ár.“ Veistu hvað ég myndi segja? Hafðu trú á sjálfum þér sem leikmanni.

Skrifaðu undir fjögurra ára samning hjá alvöru félagi og hafðu trú á því að þú getir staðið þig vel. Þegar komið er að því að framlengja samninginn hækka launin hvort sem er. Ég skil ekki af hverju leikmenn eru að semja til sjö ára,“ sagði Carragher.

Gary Neville og Jamie Carragher eru sparkspekingar hjá Sky Sports.
Gary Neville og Jamie Carragher eru sparkspekingar hjá Sky Sports. AFP

Ekki ungt og spennandi lið

Hann var þá spurður hvort skýringin væri sú að Chelsea væri að byggja upp ungt og spennandi lið. Carragher hló þá og sagði:

„Hverju ertu hluti af? Það er ekkert þarna! Þetta er ekki ungt og spennandi lið. Þeir eru að kaupa Joao Félix, segðu mér hvar hann á að spila. Þeir sömdu við [Pedro] Neto í síðustu viku.

Hvar á hann að spila þegar þú ert þegar með Cole Palmer? Hvar myndirðu spila Enzo Fernández, 100 milljóna punda leikmanni sem spilar í holunni. Hvar ætlarðu að spila [Christopher] Nkunku?

Það sem ég á við er að frábær fótboltalið þurfa á samkeppni að halda en í öllum liðum sem ég var í voru sjö til átta leikmenn sem vissu að þeir væru að fara að spila í hverri viku og svo voru sex til sjö leikmenn að berjast um þrjár stöður til viðbótar.

Svo varstu með sex eða sjö leikmenn í viðbót sem vissu að þeir væru varamenn. Það er heilbrigt lið. Maður veltir því fyrir sér hvar Joao Félix er að fara að spila og hvar hann getur klætt sig í æfingafötin?

Mér er fúlasta alvara. Ef þú ert með 40 leikmenn, hvernig komast þeir allir fyrir í einum búningsklefa. Hvernig fer æfing fram?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert