Liverpool að gera sín fyrstu sumarkaup

Giorgi Mamardashvili í leik með Valencia í spænsku 1. deildinni …
Giorgi Mamardashvili í leik með Valencia í spænsku 1. deildinni um helgina. AFP/José Jordán

Enska knattspyrnufélagið Liverpool er komið langt með að festa kaup á georgíska markverðinum Giorgi Mamardashvili frá spænska félaginu Valencia.

Sky Sports greinir frá því að tilboðið hljóði upp á tæplega 30 milljónir punda þar sem enska félagið greiðir 25,6 milljónir punda strax og 4,3 milljónir að ýmsum ákvæðum uppfylltum.

Mamardashvili er 23 ára gamall og hefur varið mark Valencia undanfarin þrjú tímabil. Þá er hann lykilmaður hjá landsliði Georgíu sem komst í 16-liða úrslit á EM 2024 í Þýskalandi í sumar, fyrsta Evrópumótinu í sögu þjóðarinnar.

Talið er líklegast að Mamardashvili verði lánaður strax aftur til Valencia og verji þar nýhöfnu tímabilinu.

Gangi kaupin í gegn verður um fyrstu kaup karlaliðs Liverpool að ræða í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert