Á leið aftur til City

Ilkay Gündogan tók við Evrópubikarnum sem fyrirliði Manchester City á …
Ilkay Gündogan tók við Evrópubikarnum sem fyrirliði Manchester City á síðasta ári. AFP/Paul Ellis

Englandsmeistarar Manchester City vinna nú hörðum höndum að því að fá þýska knattspyrnumanninn Ilkay Gündogan aftur í sínar raðir, ári eftir að hann yfirgaf félagið á frjálsri sölu til þess að ganga til liðs við Barcelona.

Gündogan hefur fengið grænt ljós á að yfirgefa Barcelona þrátt fyrir að eiga enn tvö ár eftir af samningi sínum og greinir BBC Sport frá því að það sé vegna fjárhagsvandræða spænska stórveldisins.

Börsungar keyptu Dani Olmo frá RB Leipzig í sumar en hafa ekki getað skráð hann í leikmannahóp sinn fyrir spænsku 1. deildina vegna þeirra vandræða og myndi brotthvarf Gündogans, sem er einn launahæsti leikmaður Barcelona, greiða götuna fyrir skráningu Olmo.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man. City, vildi ekki missa Gündogan frá sér síðasta sumar en félagið vildi ekki veita honum eins langan samning og þýski miðjumaðurinn óskaði eftir.

Hann lék með Man. City á árunum 2016 til 2023, spilaði 304 leiki og skoraði 60 mörk í öllum keppnum. Alls vann Gündogan 14 titla með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert