Getur orðið besti enski leikmaður sögunnar

Phil Foden var valinn besti leikmaður síðasta tímabils af PFA.
Phil Foden var valinn besti leikmaður síðasta tímabils af PFA. AFP/Darren Staples

Spænski knattspyrnumaðurinn Rodri hrósaði Phil Foden liðsfélaga sínum hjá Manchester City í hástert eftir að Foden var valinn besti leikmaður síðasta tímabils af samtökum atvinnumanna á Englandi, PFA, í gærkvöldi.

Foden er 24 ára gamall og skoraði 19 mörk í 35 deildarleikjum er Man. City vann Englandsmeistaratitilinn fjórða tímabilið í röð.

„Ég samgleðst Phil svo innilega. Hann er satt að segja mjög góður strákur, mjög feiminn. Að mínu mati býr hann yfir getu til þess að verða besti enski leikmaður sögunnar þegar ferill hans er á enda.

Hann verður að halda áfram að spila svona vel, hann er nú þegar einn besti leikmaður deildarinnar og í Evrópu. Ég tel hann geta orðið enn betri,“ sagði Rodri við fréttamenn eftir að valið var kunngjört.

„Gæðin, metnaðurinn og það sem hann leggur á sig er hann hlustar á gamalt fólk eins og mig er mjög mikilvægt. Hann var stórkostlegur á síðasta tímabili og var það fyrsta tímabilið sem ég sá hann bera liðið uppi,“ sagði hinn 28 ára gamli Rodri einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert