Knattspyrnumaðurinn Raheem Sterling leitar sér að nýju félagi eftir að Enzo Maresca, nýr stjóri Chelsea, sagði honum að hann myndi lítið sem ekkert spila fyrir liðið á tímabilinu.
Sterling gekk í raðir Chelsea sumarið 2022 eftir að hafa verið lykilmaður hjá Manchester City.
Hann hefur ekki staðið undir væntingum á Stamford Bridge en hjá City var Sterling upp á sitt besta á meðan Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var aðstoðarmaður Pep Guardiola, stjóra City.
Arteta og Sterling náðu vel saman en á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Aston Villa á morgun var Arteta spurður út í Sterling og hvort að Arsenal hefði áhuga á honum.
„Við Sterling mynduðum mjög sterkt samband saman. Hann var ótrúlegur leikmaður þá og kenndi mér margt. Ég ber mjög sterkar tilfinningar til hans,“ sagði Arteta.