Skammast sín fyrir óviðeigandi skilaboð til kvenna

Jermaine Jenas.
Jermaine Jenas. AFP/Catherine Ivill

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Jermaine Jenas, sem breska ríkisútvarpið vék frá störfum vegna óviðeigandi skilaboða til samstarfskvenna, kveðst skammast sín fyrir athæfi sitt.

Jenas var einn þáttastjórnenda spjallþáttarins The One Show og sparkspekingur hjá Match of the Day en var látinn fara vegna kynferðislegra skilaboða til tveggja kvenna.

„Ég gerði ekkert ólöglegt. Þetta voru óviðeigandi skilaboð milli tveggja fullorðinna einstaklinga sem veittu samþykki. Ég skammast mín og þykir þetta mjög leitt.

Ég hef brugðist sjálfum mér, fjölskyldu minni, vinum og samstarfsfólki og ég skulda öllum afsökunarbeiðni, sérstaklega konunum sem ég sendi skilaboð.

Mér þykir þetta svo innilega leitt. Mér þykir leitt hvað ég lét þær ganga í gegnum,“ sagði Jenas í samtali við enska götublaðið The Sun.

Leitar sér hjálpar

Jenas kveðst líta á skilaboðin á þann hátt að hann hafi verið kærustu sinni ótrúr.

„Ég held að það sé óhætt að segja að ég eigi við vandamál að stríða. Ég veit að ég skemmi fyrir sjálfum mér og er haldinn sjálfseyðingarhvöt, sérstaklega þegar kemur að ástarsambandi mínu.

Ég veit að ég þarf á hjálp að halda og ég er að leita mér hjálpar. Ég hef gert fjölda mistaka og spyr mig fjölda spurninga á þessari stundu. Ég veit að ég þarf að leggja hart að mér og að það verður erfitt.

Áður en þetta varð opinbert fór ég til læknis míns og eftir langar viðræður bókuðum við tíma í meðferð til þess að reyna að komast til botns í þessum vandamálum. Hvaðan þau koma og af hverju ég hef verið að gera þetta og særa fólkið sem er mér kærast.

Ég er ekki stoltur af því sem ég skrifaði og hvað ég sagði og já, ég lít á þetta sem framhjáhald þó ekkert líkamlegt hafi átt sér stað.

Þetta er allt mér að kenna og ég gengst fyllilega við því að það fylgir því ábyrgð að starfa hjá breska ríksiútvarpinu. Ég náði ekki að uppfylla þær kröfur. Ég verð að taka ábyrgðina,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert