Ánægður að kærurnar 115 verði teknar fyrir

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP/Kamil Krzaczynski

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, kveðst ánægður með að 115 kær­ur sem enska úr­vals­deild­in lagði fram gegn félaginu verði loks teknar formlega fyrir við réttarhöld í næsta mánuði.

Kærurnar 115 snúa að meintum ít­rekuðum brotum Man. City á fjár­hags­regl­um deild­ar­inn­ar.

„Ég er ánægður með að þetta byrji bráðum og vonandi lýkur því fljótt okkur öllum til hagsbóta.

Sérstaklega fyrir félagið en einnig öll hin úrvalsdeildarfélögin, eins fyrir allt fólkið sem bíður ekki eftir úrskurði,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi í gær.

Unum niðurstöðunni

Úrvalsdeildin lagði fram kærurnar fyrir einu og hálfu ári og er vonast til þess að niðurstaða fáist í málið í byrjun næsta árs.

„Frá dýpstu hjartarótum óska ég þess að við förum til réttarhalda og að sjálfstæða nefndin, ég ítreka sjálfstæða nefndin, uppljóstri því eins fljótt og hægt er hvað gerðist. Við munum una niðurstöðunni eins og við höfum alltaf gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert