Joao Pedro reyndist hetja Brighton & Hove Albion þegar hann skoraði sigurmarkið í 2:1-sigri á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Markið kom á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Danny Welbeck kom Brighton í forystu í fyrri hálfleik gegn uppeldisfélagi sínu og hefur nú skorað fimm sinnum gegn Man. United í úrvalsdeildinni, oftast allra þeirra fyrrverandi leikmanna liðsins sem hafa skorað gegn því í deildinni.
Amad Diallo jafnaði metin í síðari hálfleik eftir góðan sprett á hægri kantinum.
Pedro skoraði svo með skalla seint og um síðir þar sem dekkningu Man. United manna var ábótavant.
Mörkin þrjú ásamt öllu því helsta úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan, en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.