Englandsmeistarar Manchester City lögðu nýliða Ipswich Town að velli, 4:1, í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Tottenham Hotspur vann þá stórsigur á Everton, 4:0.
Ipswich náði óvænt forystunni á Etihad-leikvanginum í Manchester þegar Sammie Szmodics skoraði fyrsta mark sitt fyrir liðið á sjöundu mínútu.
Skömmu síðar jafnaði Erling Haaland metin fyrir heimamenn í Man. City með marki úr vítaspyrnu á 12. mínútu.
Tveimur mínútum síðar komst Man. City yfir þegar Kevin De Bruyne kom boltanum í autt markið eftir skelfileg mistök Arijanet Muric í marki Ipswich, sem missti boltann við vítateigslínuna.
Tveimur mínútum eftir það, á 16. mínútu, kom svo þriðja mark heimamanna og það skoraði Haaland eftir sendingu De Bruyne.
Fjögur mörk höfðu því verið skoruð á fyrstu 16 mínútum leiksins.
Haaland fullkomnaði svo þrennuna með góðu skoti fyrir utan vítateig tveimur mínútum fyrir leikslok.
Tottenham lenti ekki í nokkrum vandræðum með Everton og komst yfir á 14. mínútu með glæsimarki Yves Bissouma sem þrumaði boltanum í þverslána og inn.
Son Heung-Min tvöfaldaði forystuna á 25. mínútu þegar hann hirti boltann af Jordan Pickford og renndi honum í autt markið.
Í síðari hálfleik bætti Cristian Romero við þriðja markinu með skalla eftir hornspyrnu James Maddison og Son skoraði svo annað mark sitt og fjórða mark Tottenham áður en yfir lauk.
West Ham United vann góðan útisigur á Crystal Palace, 2:0, í Lundúnaslag.
Bæði mörkin komu í síðari hálfleik. Fyrst skoraði Tomás Soucek á 67. mínútu og Jarrod Bowen innsiglaði svo sigur Hamranna fimm mínútum síðar.
Fulham lagði nýliða Leicester City að velli, 2:1.
Emile Smith Rowe skoraði fyrsta mark sitt fyrir Fulham á 18. mínútu áður en Wout Faes jafnaði með skallamarki á 38. mínútu.
Alex Iwobi tryggði svo Fulham sigurinn með marki á 70. mínútu.
Nottingham Forest vann loks nýliða Southampton, 1:0, á útivelli.
Morgan Gibbs-White skoraði sigurmark Forest á 70. mínútu.