Englandsmeistararnir fylgjast vel með Orra

Orri Steinn Óskarsson er eftirsóttur.
Orri Steinn Óskarsson er eftirsóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Englandsmeistarar Manchester City eru mjög hrifnir af landsliðsframherjanum Orra Steini Óskarssyni, sem hefur farið á kostum í upphafi leiktíðar með FC Kaupmannahöfn.

The Athletic greinir frá í kvöld. Ekki er gert ráð fyrir því að City bjóði formlega í Orra í sumar, en félagið mun þó áfram fylgjast með sóknarmanninum sem er 19 ára gamall.

Orri hefur skorað sjö mörk í ellefu leikjum á tímabilinu til þessa og vakið áhuga stórra félaga á borð við Girona, Real Sociedad, Porto og fleiri félaga í ensku úrvalsdeildinni.

Þá segir í fréttinni að Orri sé líklegur til að yfirgefa Kaupmannahafnarfélagið áður en sumarglugganum verður lokað í lok mánaðar. Þurfa félög að reiða fram um 20 milljónir evra fyrir leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert