Neal Maupay, sóknarmaður Everton, var ekki sáttur við framkomu stuðningsmanna félagsins eftir að liðið tapaði 4:0 fyrir Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um helgina.
Á samfélagsmiðlinum X fór í dreifingu myndskeið þar sem stuðningsmenn sitja fyrir leikmönnum Everton og láta þá heyra það.
Maupay brást við myndskeiðinu og skrifaði á X-aðgangi sínum:
„Ímyndið ykkur annað starf þar sem það þykir eðlilegt að verða fyrir svona aðkasti.
Að bíða á lestarstöð til þess að öskra á menn sem eru að reyna sitt besta.“
Imagine another job where it’s normalised to get abuse like this.
— Neal Maupay (@nealmaupay_) August 25, 2024
Hanging around at a train station to scream at men who are trying their best… https://t.co/jzNPPxX3Tv
Í myndskeiðinu sjást stuðningsmenn einnig gefa leikmönnum háar fimmur. Á stuðningsmannaspjallborði Everton hafa margir fordæmt hegðun stuðningsmannanna sem öskruðu á leikmenn.
Maupay var ónotaður varamaður í leiknum á laugardag.