Ítalski knattspyrnumaðurinn Federico Chiesa er að ganga til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Chiesa, sem er 26 ára gamall, mun skrifa undir fjögurra ára samning á Anfield.
Liverpool gekk í gær frá kaupunum á markverðinum Giorgi Mamardashvili frá Valencia en hann mun klára tímabilið á Spáni og ganga til liðs við Liverpool næsta sumar.
Chiesa yrði því fyrsti leikmaðurinn sem gengur til liðs við félagið í sumar en hann er samningsbundinn Juventus núna og á að baki 98 leiki í ítölsku A-deildinni með liðinu þar sem hann hefur skorað 21 mark.
Liverpool þarf að borga í kringum 13 milljónir punda fyrir Ítalann sem var settur á sölulista þegar Thiago Motta tók við stjórnartaumunum hjá Juventus í sumar.