Lygileg endurkoma í Liverpool

Liðsmenn Bournemouth fagna í leikslok.
Liðsmenn Bournemouth fagna í leikslok. AFP/Paul Ellis

Bournemouth vann ótrúlegan 3:2-sigur á Everton á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Everton er á botninum og án stiga. Bournemouth er í sjöunda sæti með fimm stig.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komu Michael Keane og Dominic Calvert-Lewin Everton í 2:0 snemma í seinni hálfleik. Þannig var staðan fram að 87. mínútu er Antoine Semenyo minnkaði muninn í 2:1.

Lewis Cook jafnaði í 2:2 á annarri mínútu uppbótartímans og varamaðurinn Luis Sinisterra tryggði ótrúlegan endurkomusigur Bournemouth á sjöttu mínútu uppbótartímans.

Leikmenn Aston Villa fagna öðru marki liðsins.
Leikmenn Aston Villa fagna öðru marki liðsins. AFP/Darren Staples

Aston Villa hafði betur gegn Leicester á útivelli í grannaslag, 2:1. Amadou Onana og Jhon Durán komu Villa í 2:0, áður en varamaðurinn Facundo Buonanotte minnkaði muninn fyrir Leicester. Villa er í sjötta sæti með sex stig. Leicester er í 15. sæti með eitt stig.

Eins og Villa þá er Brentford með sex stig eftir sigur á nýliðum Southampton á heimavelli, 3:1. Bryan Mbeumo gerði tvö fyrstu mörk Brighton og Youane Wissa það þriðja. Yukinari Sugawara lagaði stöðuna fyrir Southampton, sem er án stiga, í uppbótartíma. Hákon Rafn Valdimarsson var allan tímann á bekknum hjá Brentford. 

Nýliðar Ipswich náðu í sitt fyrsta stig er liðið gerði jafntefli við Fulham á heimavelli, 1:1. Liam Delap kom Ipswich yfir á 15. mínútu en Adama Traoré jafnaði á 32. mínútu. Fulham er með fjögur stig.

Þá skildu Nottingham Forest og Wolves jöfn, 1:1, í grannaslag. Chris Wood kom Forest yfir strax á tíundu mínútu en tveimur mínútum síðar jafnaði Jean-Ricner Bellegarde og þar við sat. Stigið var það fyrsta sem Wolves fær, en Forest er með fimm stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka