Sterling kominn til Arsenal

Raheem Sterling leikur með Arsenal í vetur.
Raheem Sterling leikur með Arsenal í vetur. AFP/Kamil Krzaczynski

Enski knattspyrnumaðurinn Raheem Sterling flutti sig um set í London seint í kvöld þegar Arsenal fékk hann lánaðan frá Chelsea í þann mund sem verið var að loka félagaskiptaglugga sumarsins á Englandi.

Sterling verður í láni allt þetta tímabil hjá Arsenal, en í lánssamningnum eru engin bindandi ákvæði varðandi leikmanninn þegar lánstímanum lýkur.

Sterling, sem verður þrítugur í desember, var kominn út í kuldann hjá Enzo Marchesa, nýjum knattspyrnustjóra Chelsea, sem taldi sig ekki hafa not fyrir hann.

Það hefur því hallað undan fæti hjá Sterling sem lék með Liverpool frá 17 ára aldri og í þrjú ár með aðalliðinu en síðan í sjö ár með Manchester City þar sem hann varð fjórum sinnum enskur meistari og einu sinni bikarmeistari. Frá 2022 hefur hann verið leikmaður Chelsea.

Sterling hefur leikið 379 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim 123 mörk og þá hefur hann skorað 20 mörk í 82 landsleikjum fyrir England.

Arsenal lánaði líka leikmann á síðustu stundu því Reiss Nelson er farinn sem lánsmaður til Fulham.

Chelsea lánaði ennfremur albanska framherjann Armando Broja til Everton en lengi var útlit fyrir að hann færi til nýliða Ipswich.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert