Liverpool hafði betur gegn erkifjendum sínum í Manchester United, 3:0, á Old Trafford í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag.
Liverpool er í öðru sæti í deildinni með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og með jafn mörg stig og sömu markatölu og þmanchester City sem er í fyrsta sæti. Þetta var annað tap United í röð sem er í 14. sæti.
Leikurinn byrjaði jafn en Liverpool setti boltann í netið eftir aðeins sjö mínútur. Það gerði Trent Alexander-Arnold eftir flott spil en Mohamed Salah var rangstæður í uppbyggingunni.
Hægt og rólega tók Liverpool yfir og ýtti United neðar og á 35. mínútu kom fyrsta löglega markið. Casemiro gaf mótherja sínum Ryan Gravenberch boltann á miðjunni sem fór í átt að markinu og gaf svo Salah boltann sem sendi fyrir. Sending var á lofti á fjær og þar voru tveir Liverpool-menn, Dominik Szoboszlai og Luis Diaz, þeir hoppuðu upp á sama tíma en Szobosszlai beygði sig og Diaz stangaði boltann í netið.
Á 42. mínútu skoraði Diaz aftur og aftur er hægt að skrifa markið á mistök hjá Casemiro. Hann fer auðveldlega niður eftir snertingu frá Diaz sem tók boltann af honum og kom honum út á Salah, hann skilaði boltanum beint aftur á hann frá hægri og Diaz fór í skot með hægri í hægra hornið. Glæsilegt mark og Liverpool 2:0 yfir í hálfleik.
Casemiro var tekin út af í hálfleik og United byrjaði seinni ágætlega. Joshua Zirkzee fékk frábært færi á 52. mínútu en Alisson varði vel af stuttu færi.
Liverpool skoraði þriðja markið á 56. mínútu og það var Salah Alexis Mac Allister vann boltann á miðjunni og Liverpool fór í skyndisókn. Szoboszlai fer samferða Salah í átt að teignum og sendir svo boltann á Salah sem skoraði.
Salah fékk tvö stórhættuleg færi stuttu eftir markið en setti boltann rétt framhjá í bæði skiptin.
Zirkzee var nálægt því að minnka muninn á 78. mínútu eftir fyrirgjöf frá Marcus Rashford á fjær. Virgil Van Dijk rétt missti af boltanum og Zirkzee var mættur fyrri aftan hann og náði að reka hælinn í boltann en hann rúllaði svo rétt framhjá markinu.
Liverpool hefur ekki fengið mark á sig í fyrstu þremur leikjum liðsins í deildinni á tímabilinu.