Eiður Smári Guðjohnsen var sammála öllu því sem Gylfi Einarsson sagði um rauða spjaldið sem Declan Rice, miðjumaður Arsenal, fékk í jafntefli liðsins gegn Brighton, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina.
Eiður og Gylfi voru gestir Tómasar Þórs Þórðarson í Vellinum á Símanum Sport í gær.
Í stöðunni 1:1 fékk Rice sitt annað gula spjald og því rautt fyrir að pota boltanum í burtu áður en Joel Veltman, varnarmaður Brighton, gat sparkað í hann. Í staðinn sparkaði varnarmaðurinn í Rice og fékk sjálfur gult.
„Dómarinn hefði alveg getað sleppt þessu. Það er lítil snerting þarna.
Aftur á móti er Declan Rice allt of reynslumikill leikmaður til að gera þessi mistök. Hann veit að hann er á gulu og það eru breyttar áherslur.
Klaufalegt hjá Rice að bjóða upp á þetta en þar sem snertingin er það lítil hefði dómarinn getað litið fram hjá þessu,“ sagði Gylfi meðal annars.
Tómas spurði síðan Eið um skoðun á rauða spjaldinu.
„Allt sem Gylfi sagði,“ svaraði Eiður einfaldlega.
Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann Sport.