„Í þessu marki og í þriðja markinu sér maður hversu viðkvæmir United-menn eru,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen í Vellinum á Símanum Sport í gær.
Eiður Smári var ásamt Gylfa Einarssyni gestur Tómasar Þórs Þórðarson í Vellinum í gær en þeir ræddu þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Meðal umræðuefna var United-liðið sem tapaði 3:0 á heimavelli fyrir erkifjendunum í Liverpool.
„Þegar þeir klikka á sendingu eða tapa boltanum á miðsvæðinu þá eru þeir allt í einu tveir eða þrír gegn fjórum eða fimm Liverpool-mönnum,“ bætti Eiður Smári við.
Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann Sport.