Skærasta stjarna Liverpool á förum

Mohamed Salah og Virgil van Dijk fagna marki þess fyrrnefnda …
Mohamed Salah og Virgil van Dijk fagna marki þess fyrrnefnda í gær en þeir gætu báðir verið á förum frá Liverpool í sumar. AFP/Paul Ellis

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah mun yfirgefa enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool næsta sumar.

Þetta tilkynnti leikmaðurinn í viðtali við Sky Sports eftir öruggan sigur liðsins, 3:0, gegn Manchester United í 3. umferð ensku úrvaldeildarinnar á Old Trafford í Manchester í gær.

Samningur Salah við Liverpool rennur út næsta sumar en hann hefur verið sterklega orðaður við félög í Sádi-Arabíu. Hann á að baki 352 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 214 mörk en hann er 32 ára gamall.

Nýtur þess að spila fótbolta

„Ég hugsaði með mér, farandi inn í leikinn, að þetta væri mögulega síðasti leikurinn minn á Old Trafford,“ sagði Salah.

„Það hefur enginn rætt við mig um nýjan samning. Ég sagði því við sjálfan mig, farandi inn í þetta tímabil, að ég ætlaði að njóta þess að spila fótbolta og spila fyrir Liverpool.

Mér líður eins og ég sé algjörlega frjáls. Þetta er mitt síðasta tímabil hjá Liverpool,“ bætti Egyptinn við en hann gekk til liðs við Liverpool frá Roma, sumarið 2017, fyrir 36 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert