Ten Hag: Ég er ekki Harry Potter

Erik ten Hag brúnaþungur í gær.
Erik ten Hag brúnaþungur í gær. AFP/Paul Ellis

Erik ten Hag knattspyrnustjóri Manchester United var pirraður er hann mætti á blaðamannafund eftir 3:0 tap liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hollendingurinn reifst við blaðamenn og varði sjálfan sig, þrátt fyrir slæmt tap.

„Ég er ekki Harry Potter, þú verður að skilja það. Þetta var fyrsti leikur þriggja í byrjunarliði á tímabilinu og Ugarte spilaði ekki eina mínútu. Það mun taka einhverjar vikur fyrir hann og aðra leikmenn að komast í gang,“ sagði ten Hag.

Hann var svo spurður út í hvort liðið hans væri að gera sömu mistök og fyrir tveimur árum síðan, þegar hann tók við United-liðinu. 

„Ég er ekki sammála. Annars værum við ekki að vinna titla og stóru liðin. Ég er að byggja upp nýtt lið, ég hef þurft að útskýra það svo oft, samt eru bara þrír leikir búnir. Ég er bjartsýnn á að við getum lyft bikar í lok tímabils,“ sagði sá hollenski.

United er í 14. sæti deildarinnar með þrjú stig eftir þrjá leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert