Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool ætla að bjóða Mohamed Salah, sóknarmanni liðsins, nýjan samning hjá félaginu.
Það er ítalski félagaskiptafræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Salah, sem er 32 ára gamall, greindi sjálfur frá því eftir leik United og Liverpool á sunnudaginn síðasta að þetta yrði hans síðasta tímabil á Anfield.
Salah lét þessi orð falla í viðtali við Sky Sports en þar sagði hann meðal annars að hann hefði ekkert heyrt í forráðamönnum félagsins um nýjan samning.
Romano greindi frá því í hlaðvarpi sínu, Debrief, að forráðamenn Liverpool ætluðu sér að setjast niður með umboðsmanni Salah í septembermánuði og bjóða Egyptanum nýjan samning.
Salah þénar 350.000 pund á viku og er launahæsti leikmaður liðsins en bandarískir eigendur Liverpool hafa ekki verið viljugir að bjóða leikmönnum, sem eru komnir yfir þrítugt, langa samninga.
Romano greinir frá því að félagið sé meðal annars tilbúið að bjóða honum sömu laun áfram á Anfield, en stærsta spurningamerkið í viðræðunum sé lengd samningsins og gæti það ráðið úrslitum um það hvort Salah verði áfram á Anfield eða ekki.