Fyrirliði United: „Við getum ekki unnið deildina“

Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes. AFP/Darren Staples

Knattspyrnumaðurinn Bruno Fernandes, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, segir að félagið geti ekki unnið ensku úrvalsdeildina í ár.

Fernandes, sem er 29 ára gamall, gekk til liðs við United frá Sporting í heimalandinu í janúar 2020 og var gerður að fyrirliði liðsins fyrir síðasta keppnistímabil.

United hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu og er í fjórtánda sæti úrvalsdeildarinnar með 3 stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Horfa á Meistaradeildina

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að við erum ekki að fara vinna ensku úrvalsdeildina,“ sagði Portúgalinn í samtali við DAZN Portugal.

„Við erum að horfa á efstu fjögur sætin og Meistaradeildarsæti er eitthvað sem við erum að horfa til.

Við getum ekki unnið deildina, ekki í dag. Vonandi samt, einn daginn, getum við barist um Englandsmeistaratitilinn,“ bætti Fernandes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert