Argentínski knattspyrnumaðurinn Ángel Di María var í áhugaverðu viðtali við ESPN í Argentínu á dögunum þar sem hann ræddi meðal annars þá knattspyrnustjóra sem hafa þjálfað hann.
Di María, sem er 36 ára gamall, lék með stórliðum á borð við Real Madrid, Manchester United, París SG og Juventus á ferlinum, ásamt því að leika 145 A-landsleiki fyrir Argentínu.
Hans verður ekki minnst fyrir tíma sinn hjá United þar sem hann náði sér engan veginn á strik en hann skoraði 4 mörk í 32 leikjum frir félagið í öllum keppnum, ásamt því að leggja upp 11 mörk til viðbótar.
„Van Gaal var sá allra versti sem þjálfaði mig,“ sagði Di María þegar hann var spurður að því hver væri besti þjálfari sem hefði þjálfað hann.
„Ég ætla bara að fá að segja það strax, áður en þú spyrð mig. Ég vildi bara fá að koma því á framfæri ef þú hefðir einhverjar efasemdir,“ bætti Di María við og hló.
Louis van Gaal stýrði United frá 2014 til ársins 2016 en lenti fljótlega upp á kant við Di María sem kom til félagsins, sumarið 2014, frá Real Madrid á Spáni.