Willum Þór Willumsson, landsliðsmaður í fótbolta, skipti frá Go Ahead Eagles í Hollandi og yfir til Birmingham á Englandi í sumar. Willum hefur byrjað vel hjá nýju félagi, í nýju landi.
„Það er mjög skemmtilegt á Englandi. Það hefur gengið frekar vel og ég hef verið fljótur að koma mér inn í hlutina. Mér líður mjög vel hjá Birmingham,“ sagði Willum við mbl.is.
Hann var ákveðinn í að skipta um félag eftir síðasta tímabil en hann var hjá hollenska félaginu í tvö tímabil.
„Planið var að skipta um félag. Mér fannst ég vera kominn í þægindaramma í Hollandi. Ég vildi prófa nýja áskorun. Ég er mjög sáttur með hvernig það fór,“ sagði hann.
Birmingham féll úr B-deildinni á síðustu leiktíð. Liðið er nú í þriðja sæti C-deildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki og ætlar sér beint aftur upp.
„Það hefur gengið vel inni á vellinum. Við erum búnir að vinna þrjá leiki í röð og ég er búinn að festa mig í liðinu eftir smá meiðsli. Mér hefur gengið vel persónulega líka,“ sagði hann. Willum er ánægður með skrefið, þrátt fyrir deildina sem Birmingham spilar í.
„Ég fór úr hollensku úrvalsdeildinni í ensku C-deildina en þetta er ekki C-deildarfélag. Þeir eru búnir að kaupa fullt af flottum leikmönnum og stefnan er að fara beint aftur upp. Þetta er mjög gott skref fyrir mig,“ sagði hann.
Enska C-deildin er afar krefjandi deild. Leiknar eru 46 umferðir og því nóg fram undan hjá Willum og liðsfélögum hans.
„Maður er nánast alltaf að spila tvisvar í viku og þannig bætir maður sig sem leikmaður. Það er eitt að æfa og annað að spila. Það er flott fyrir mig að fá svona marga leiki,“ sagði Willum.
Einn af eigendum Birmingham er bandaríska stórstjarnan Tom Brady, einn besti leikstjórnandinn í sögu NFL-ruðningsdeildarinnar.
„Það er mjög gaman. Hann hélt ræðu fyrir fyrsta leik og hann er duglegur að birta hluti um liðið. Það gætu verið einhverjir þættir á leiðinni um Birmingham. Það verða pottþétt einhverjar myndavélar á leiknum við Wrexham,“ sagði Willum en á meðal eiganda Wrexham eru Hollywood-stjörnurnar Ryan Reynolds og Rob McElhenney.
Willum er í íslenska landsliðinu sem mætir Svartfjallalandi í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum í kvöld klukkan 18.45.