Í fyrsta sinn í 38 ár hjá Arsenal

Arsenal leikur í svörtum varabúningum sínum á sunnudag.
Arsenal leikur í svörtum varabúningum sínum á sunnudag. AFP/Adrian Dennis

Karlalið Arsenal í knattspyrnu mun í fyrsta sinn í 38 ára þurf að klæðast útivallartreyju sinni er liðið heimsækir Tottenham Hotspur í Norður-Lundúnaslagnum í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.

Arsenal fær venjulega að spila í rauðri og hvítri aðaltreyju sinni á útivelli gegn Tottenham en svo verður ekki í ár.

Samtök atvinnudómara á Englandi, PGMOL, hafa metið það sem svo að of mikill hvítur litur sé í aðaltreyju Arsenal á þessu tímabili.

Gæti það valdið ruglingi hjá leikmönnum og áhorfendum en aðaltreyja Tottenham er hvít og dökkblá.

Því þarf Arsenal að spila í svörtum útivallarbúningum sínum. Er það í fyrsta sinn síðan tímabilið 1985-86 sem Skytturnar spila í varabúningum sínum í Norður-Lundúnaslagnum og í fyrsta sinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, sem var stofnuð árið 1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert