Erling Haaland í sárum

Erling Haaland.
Erling Haaland. AFP/Henry Nicholls

Norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland setti inn hjartnæma færslu á samfélagsmiðlinn Instagram þar sem hann minnist Ivar Eggja, náins vinar síns.

Eggja, sem var 59 ára gamall, lést á dögunum en hann var besti vinur föðurs Haalands, Alf-Inge Haalands, og svaramaður í brúðkaupoi hans og Gry Marita, móður Haalands.

Eggja hjálpaði Haaland mikið utan vallar og sá meðal annars um alla búferlaflutninga hans þegar hann gekk til liðs við RB Salzburg, Borussia Dortmund og loks Manchester City þar sem hann leikur í dag.

Mun alltaf tileinka mér þetta

„Þú varst algjör goðsögn Ivar,“ skrifaði Haaland í færslu á Instagram.

„Það er erfitt að setja það í orð hversu miklu máli þú skiptir mig. Orð fá því ekki lýst hversu mikið ég mun sakna þín. Mér er sama! Mér er nákvæmlega sama! Þetta kenndir þú mér og ég mun alltaf tileinka mér þetta.

Takk fyrir allt minn kæri. Við sjáumst aftur síðar, það er alveg á hreinu. Hvíldu í friði, Ivar,“ bætti norski markahrókurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert