Alan Shearer, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur hjá BBC, lenti í kostulegu atviki í lestarferð frá Lundúnum til Newcastle á dögunum.
Shearer er goðsögn hjá Newcastle en hann raðaði inn mörkum fyrir liðið á árunum 1996 til 2006 og skoraði 148 mörk í 303 leikjum með liðinu í ensku úrvalsdeildinni.
Erkifjendur Newcastle eru grannarnir í Sunderland og tók lestin sem Shearer hafði komið sér fyrir í að fyllast af stuðningsmönnum Sunderland, sem var nýbúið að spila leik rétt hjá.
„Ég setti á mig derhúfu og horfði niður næstu fjóra tímana. Ég var að drepast í hálsinum eftir þessa lestarferð. Ég gat ekki lyft hálsinum daginn eftir. Ég var skíthræddur en sem betur fer þekkti mig enginn,“ sagði Shearer hlæjandi í Rest is Football-hlaðvarpinu.