Paul Scholes, goðsögn hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United, ræddi um verstu kaup félagsins frá upphafi í The Overlap-þættinum á Sky.
Scholes var allan ferilinn hjá United og varð ellefu sinnum enskur meistari og tvisvar sinnum Evrópumeistari með liðinu.
„Mér dettur í hug Juan Sebastian Veron. Hann var virkilega góður en það gekk ekki upp hjá honum hjá United,“ sagði Scholes og hélt áfram:
„Svo eru markverðir eins og Massimo Taibi og Mark Bosnich. Bosnich var góður hjá Villa en það er ótrúlegt hvað hann var slakur hjá okkur. Við skutum þrisvar á hann á æfingum og hann var sprunginn og svo kunni hann heldur ekki að sparka í boltann.
Mér dettur líka Alexis Sánchez í hug því hann var á himinháum launum. En allra verstu kaupin eru Bosnich,“ sagði miðjumaðurinn fyrrverandi.