Snýr fljótlega aftur eftir martraðarbyrjun

Matt O'Riley meiddist illa á ökkla í sínum fyrsta leik …
Matt O'Riley meiddist illa á ökkla í sínum fyrsta leik fyrir Brighton. Ljósmynd/Brighton

Fabian Hürzeler, knattspyrnustjóri Brighton & Hove Albion, segir danska miðjumanninn Matt O’Riley snúa fljótt aftur á völlinn eftir að hann meiddist illa á ökkla í fyrsta leik sínum fyrir liðið í lok síðasta mánaðar.

O’Riley var tæklaður mjög illa eftir aðeins níu mínútna leik í 4:0-sigri Brighton á Crawley í enska deildabikarnum og gekkst undir skurðaðgerð í kjölfarið.

Búist var við langri fjarveru miðjumannsins en Hürzeler er bjartsýnn á að hann muni jafna sig fljótt.

„Hann er í mjög góðu skapi. Hann er með frábæran persónuleika og frábært viðhorf. Eftir aðgerðina var hann strax virkilega jákvæður.

Hann er með okkur á æfingasvæðinu og er þegar byrjaður á endurhæfingu sinni. Ég held að hann verði ansi fljótur að koma til baka,“ sagði þýski stjórinn á fréttamannafundi í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert