Norðmaðurinn Martin Ödegaard gæti verið með Arsenal þegar liðið heimsækir erkifjendur sína í Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á sunnudaginn.
Ödegaard meiddist illa í sigri Noregs á Austurríki síðastliðinn mánudag. Ola Sand, læknir norska landsliðsins, sagði að Ödegaard yrði frá í að minnsta kosti þrjár vikur.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, vildi ekki útiloka að hann yrði með gegn Tottenham á blaðamannafundi í dag.
„Við eigum eftir að sjá umfang meiðslanna og það gerist sennilega síðdegis í dag. Martin vill vera með okkur á hverjum degi,“ sagði Arteta.