Stjörnur Liverpool á síðasta ári

Mohamed Salah og Virgil van Dijk fagna marki þess fyrrnefnda …
Mohamed Salah og Virgil van Dijk fagna marki þess fyrrnefnda í gær en þeir gætu báðir verið á förum frá Liverpool í sumar. AFP/Paul Ellis

Þrjár skærustu stjörnur knattspyrnufélagsins Liverpool, Mohamed Salah, Virgil van Dijk og Trent Alexander-Arnold, eru allar á síðasta ári samnings síns í Bítlaborginni. 

Arne Slot stjóri liðsins var spurður út í hvort það olli liðinu vandræðum en Liverpool hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína í ensku úrvalsdeildinni. 

„Aftur gef ég ykkur leiðinlega svarið en við tölum ekki um samninga hér. Mér finnst það ekki trufla neitt. Við erum öll einbeitt að ná sem mestum árangri hjá Liverpool,“ sagði Slot á blaðamannfundi. 

Mohamed Salah gaf það út eftir leikinn gegn Manchester United, sem Liverpool vann 3:0, að hann væri að spila sitt síðasta tímabil hjá félaginu. 

Hins vegar töldu margir það einfaldlega vera skýr skilaboð til félagsins um að hann vilji nýjan samning. 

Það þykir líklegt að allir þrír skrifi undir nýjan samning á árinu eða því næsta, en á meðan að aðeins ár er eftir getur allt gerst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert