Fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu var að ljúka rétt í þessu og það virðist ekkert geta stoppað norsku markavélina Erling Haaland.
Manchester City vann heimasigur á Brentford, 2:1 þar sem Brentford komst yfir á 1. mínútu leiksins með marki frá Yoane Wissa.
Heimamenn í City voru ekki lengi að jafna sig á því og skoraði Erling Haaland tvö mörk með tólf mínútna millibili sem tryggðu Manchester City sigurinn.
Landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson var ónotaður varamaður hjá Brentford í dag.
Fulham og West Ham skildu þá jöfn í Lundúnum í dag en leikurinn endaði 1:1.
Raul Jimenez skoraði fyrir heimamenn í Fulham en Danny Ings jafnaði fyrir gestina á fimmtu mínútu uppbótartíma og tryggði þeim dramatískt jafntefli.
Crystal Palace og Leicester gerðu þá 2:2 jafntefli þar sem Leicester komst tveimur mörkum yfir með mörkum frá Jamie Vardy og Stephy Mavididi.
Heimamenn gáfust ekki upp og skoraði Jean-Philippe Mateta tvívegis fyrir þá og náði að jafna leikinn.
Þá gerðu Brighton og Ipswich markalaust jafntefli í bragðdaufum leik.
Í aðalleik dagsins vann Nottingham Forest óvæntan sigur á Liverpool en mbl.is fylgdist vel með leiknum í beinni textalýsingu.