Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, kveðst bjartsýnn á að vinna titil með liðinu á þessu tímabili þrátt fyrir tap gegn erkifjendunum í Arsenal á heimavelli í gær, 1:0.
Tottenham er aðeins með fjögur stig eftir fyrstu fjóra leikina en Ástralinn setur það ekki fyrir sig og bendir á árangur sinn á ferlinum sem knattspyrnustjóri.
„Ég vinn alltaf titla á mínu öðru ári hjá félagi. Það breytist ekkert. Nú er ég búinn að segja þetta, og ég er ekki vanur að setja eitthvað án þess að trúa á það," sagði Postecoglu brattur við fréttamenn eftir leikinn.
Postecoglou hefur unnið fimm meistaratitla á ferlinum. South Melbourne og Brisbane Road urðu ástralskir meistarar hjá honum 1998 og 2011, hann stýrði Yokohama F. Marinos til japanska meistaratitilsins árið 2019 og svo vann Celtic skoska meistaratitilinn undir hans stjórn árin 2022 og 2023.
Postecoglou tók við Tottenham fyrir síðasta tímabil og þar endaði Tottenham í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar. Liðið leikur í Evrópudeildinni í vetur og getur því barist um titil þar, sem og sett stefnuna á enska meistaratitilinn, enska bikarinn og enska deildabikarinn.