Getum ekkert gert nema mæta til leiks

Pep Guardiola og hans menn spila í kringum 75 leiki …
Pep Guardiola og hans menn spila í kringum 75 leiki á tímabilinu ef að líkum lætur. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að ekkert sé hægt að gera við auknu leikjaálagi, annað en að mæta til leiks.

City á fyrir höndum þrjá leiki á einni viku, gegn ítölsku meisturunum Inter Mílanó í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöldið, gegn Arsenal í úrvalsdeildinni á sunnudaginn og gegn Watford í deildabikarnum á þriðjudagskvöldið.

Nokkrir leikmenn City, þar á meðal Kevin De Bruyne, Manuel Akanji og Bernardo Silva, hafa lýst yfir áhyggjum af þéttri leikjadagskrá tímabilsins þar sem City mun væntanlega spila í kringum 75 leiki í öllum mótum. Fjölgun leikja í Meistaradeildinni hefur m.a. verið gagnrýnd.

„Ég get ekkert gert við þessu. UEFA ákvað að hafa þetta svona, við viljum taka þátt, þannig að við fylgjum dagskránni. Já, það eru vissulega fleiri leikir á dagskránni, en þannig er þetta bara. Hvað getum við gert við því?“ sagði Guardiola við fréttastofu Reuters.

„Á miðvikudaginn mætum við besta liði Ítalíu og á sunnudag mætum við mesta keppinauti okkar undanfarin tvö ár. Síðan er einn leikur enn á þriðjudag. Við erum með unglingalið. Við verðum að laga okkur að þessu og láta vaða. Ég er hrifinn af Meistaradeildinni, svo við gerum þetta,“ sagði Guardiola, og gaf í skyn að yngri leikmenn yrðu notaðir að einhverju leyti, væntanlega þá helst í deildabikarleiknum gegn Watford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert