Mál Manchester City komið af stað – 115 meint brot

Manchester City er sigursælasta lið Englands undanfarinn áratug en gæti …
Manchester City er sigursælasta lið Englands undanfarinn áratug en gæti átt þungar refsingar yfir höfði sér ef félagið verður fundið sekt um brotin. AFP/Darren Staples

Vitnaleiðslur í máli ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu gegn Manchester City hófust núna fyrir hádegið en þar er enska meistarafélagið sakað um 115 brot á fjármálareglum deildarinnar. 

Meint brot eiga að hafa átt sér stað á árunum 2009 til 2018 og auk þess er félagið kært fyrir að hafa ekki sýnt samstarfsvilja með rannsakendum málsins frá 2018 til 2023.

54 brotanna snúa að skorti á upplýsingum um fjármál félagsins frá 2009 til 2018.

14 brotanna snúa að skorti á nákvæmum upplýsingum um greiðslur  til leikmanna og knattspyrnustjóra á árunum 2009 til 2018.

Fimm vegna brota á reglum UEFA

Fimm brotanna snúa að reglum UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, um fjárhagslega háttvísi á árunum 2013 til 2018.

Sjö brotanna eru á reglum deildarinnar um fjárhagslega háttvísi á árunum 2015 til 2018.

35 brotanna eru vegna skorts á samvinnu við rannsakendur úrvalsdeildarinnar á árunum 2018 til 2023.

Talið er að vitnaleiðslurnar taki um tíu vikur og standi fram eftir nóvembermánuði. Þær fara ekki fram í réttarsölum og ekkert er gefið upp um staðsetningu. 

Enskir fjölmiðlar telja sig hafa heimildir fyrir því að endanlegan úrskurð eigi að kveða upp snemma á árinu 2025.

Manchester City hefur hafnað öllum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert