Skaut á eigið félag og eyddi svo færslunni

Cristian Romero í leik Tottenham gegn Arsenal í gær.
Cristian Romero í leik Tottenham gegn Arsenal í gær. AFP/Adrian Dennis

Cristian Romero, miðvörður Tottenham Hotspur, var ekki ánægður með að félagið hafi ekki flogið leikmönnum liðsins heim með einkaþotu úr landsliðsverkefnum fyrir leik Tottenham gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Romero var í landsliðsverkefni með Argentínu í síðustu viku og þegar leikmenn frá Suður-Ameríku fara í slík verkefni eiga ensku úrvalsdeildarfélögin það til að gera heimferðina auðveldari með því að fljúga þeim heim með einkaþotu.

Tottenham hefur ekki gripið til þess og var Romero ekki glaður með það. Arsenal vann leikinn 1:0.

„Tottenham tapaði aftur fyrir Arsenal. Þeir gátu ekki barist allt til enda því þeir náðu ekki að tækla smáatriðin. Tottenham var eina úrvalsdeildarfélagið sem ákvað að láta leikmenn sína snúa aftur á eigin vegum og án tilheyrandi skipulagningar.

Þar með gáfu þeir eftir forskot því leikmenn þeirra komu til baka minna hvíldir. Cuti Romero spilaði til dæmis þreyttur,“ skrifaði argentínski íþróttafréttamaðurinn Gaston Edul á X-aðgangi sínum.

Romero deildi færslunni á sínum X-aðgangi en eyddi henni svo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert