Postecoglou svarar gagnrýninni

Ange Postecoglou í leik Tottenham og Arsenal á dögunum.
Ange Postecoglou í leik Tottenham og Arsenal á dögunum. AFP/Adrian Dennis

Ummæli Ange Postecoglou, knattspyrnustjóra Tottenham, eftir tap gegn Arsenal í N-Lundúnaslagnum um helgina hafa verið gagnrýnd. Ástralinn gefur lítið fyrir neikvæðnisraddir.

Postecoglou sagði í kjölfar 1:0-ósigurs Tottenham að hann væri vanur að vinna bikara á öðru tímabili sínu í starfi. Annað tímabil hans við stjórnvölinn í Lundúnaklúbbnum byrjar ekki glæsilega en Ástralinn er ekki af baki dottinn þótt ummælin hafi farið öfugt ofan í marga.

„Ég skal leiðrétta mig. Ég er ekki vanur að vinna bikara, ég vinn alltaf bikara á öðru tímabili mínu hjá félögum. Ekkert hefur breyst. Ég segi ekki neitt nema að ég trúi því sjálfur“ sagði Ástralinn í samtali við Sky Sports.

Meðal þeirra sem gagnrýndu Postecoglou var Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, en Merson sagðist eiga meiri möguleika á að vinna Strictly Come Dancing-sjónvarpsþáttinn þar sem Merson er þáttakandi heldur en Tottenham að vinna bikar í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert