„Ótrúlegt að tapa fyrir Forest“

Arne Slot á San Siro í gær
Arne Slot á San Siro í gær AFP/Piero Cruciatti

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði sínum mönnum í hástert fyrir góðan sigur á AC Milan í Meistaradeild Evrópu. Hollendingurinn sagði það jaðra við hneyksli að hafa tapað fyrir Nottingham Forest á Anfield á laugardag.

Liverpool sneri 1:0 forskoti Milan í 3:1 sigur og var sigurinn síst of stór. Slot var ánægður með viðbragð sinna manna eftir að hafa lent undir í leiknum.

„Það var jákvætt fyrir okkur að lenda 1:0 undir, maður veit aldrei hvernig liðið bregst við þeirri stöðu. En ég tel okkur hafa sýnt að við getum spilað góðan fótbolta. Ef liðið getur spilað svona vel er það nánast, kannski er hneyksli of stórt orð, en það er ótrúlegt að við höfum getað tapað fyrir Forest á heimavelli“, sagði Slot í leikslok.

Miðverðirnir Ibrahima Konaté og Virgil Van Djik skoruðu fyrir Liverpool í fyrri hálfleik og Dominic Szoboszlai kórónaði sigurinn með þriðja marki Liverpool eftir að Christian Pulisic kom Milan yfir snemma leiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert