Bregðast við heimildarmynd um kynferðisofbeldi fyrrverandi eiganda

Mohamed Al-Fayed.
Mohamed Al-Fayed. AFP

Enska knattspyrnufélagið Fulham hefur komið á fót rannsókn innan félagsins til þess að fá úr því skorið hvort einhver hjá því hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu Mohameds Al-Fayeds, fyrrverandi eiganda félagsins.

Breska ríkisútvarpið frumsýndi í gær heimildarmyndina Al-Fayed: Predator at Harrods, þar sem 20 konur stíga fram og saka hann um kynferðisofbeldi. Þar af saka fimm konur hann um að hafa nauðgað sér.

Egyptinn Al-Fayed, sem lést á síðasta ári 94 ára gamall, var eigandi stórverslanakeðjunnar Harrods  og átti auk þess Ritz-hótelið í París. Var hann eigandi Fulham í 16 ár, frá 1997 til 2013, þegar karlaliðið fór upp úr ensku C-deildinni í úrvalsdeildina.

Störfuðu hjá Harrods og Ritz

Konurnar 20 eiga það sameiginlegt að hafa starfað hjá Harrods og Ritz. Meint brot eru sögð hafa átt sér stað í Lundúnum, París, St. Tropez-eyju og Abú Dabí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Í yfirlýsingu frá Fulham segir að félagið vinni nú hörðum höndum að því að finna út úr því hvort einhver starfsmaður hjá því hafi verið mögulegt fórnarlamb Al-Fayeds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert