Daninn Peter Schmeichel, fyrrverandi markvörður Manchester United og danska landsliðsins, var allt annað en sáttur við Michael Oliver dómara í leik Manchester City og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.
Oliver vísaði Leandro Trossard af velli með rautt spjald í lok fyrri hálfleiks í stöðunni 2:1 fyrir Arsenal. City jafnaði að endingu í uppbótartíma og varð jafntefli niðurstaðan.
„Þetta er stærsti leikur tímabilsins til þessa. Af hverju er Michael Oliver að skemma leikinn? Af hverju setur hann sig í þessa stöðu? Fyrra gula spjaldið var harður dómur og hans fyrsta brot.
Það eru miklar tilfinningar í svona stórum leikjum og dómarinn verður að sýna smá skilning, en nei. Hann ákvað að baða sig í sviðsljósinu,“ sagði Schmeichel reiður á Viaplay.