Chelsea skoraði fimm – naumt hjá City

Christopher Nkunku skoraði þrennu.
Christopher Nkunku skoraði þrennu. AFP/Adrian Dennis

Chelsea úr úrvalsdeildinni átti ekki í neinum vandræðum með að sigra Barrow úr D-deildinni á heimavelli í 3. umferð í enska deildabikarnum í fótbolta í kvöld. Urðu lokatölur 5:0.

Christopher Nkunku kom Chelsea í 2:0 með tveimur mörkum á fyrsta korterinu og þriðja markið var sjálfsmark. Voru hálfleikstölur 3:0.

Pedro Neto gerði fjórða markið á 48. mínútu og Nkunku fullkomnaði þrennuna með fimmta markinu á 75. mínútu.

Matheus Nunes fagnar marki sínu fyrir City.
Matheus Nunes fagnar marki sínu fyrir City. AFP/Darren Staples

Englandsmeistarar Manchester City eru einnig komnir áfram eftir sigur á Watford úr B-deildinni, 2:1. Jeremy Doku kom City yfir á 5. mínútu og Matheus Nunes gerði annað markið á 38. mínútu. Tom Ince minnkaði muninn á 86. mínútu og þar við sat.

Aston Villa hafði betur gegn Wycombe úr C-deildinni á útivelli, 2:1. Emiliano Buendía gerði fyrra markið á 55. mínútu og John Durán það seinna á 85. mínútu úr víti. Richard Kone klóraði í bakkann fyrir Wycombe í uppbótartíma. 

Leicester þurfti að hafa fyrir sigri á Walsall úr D-deildinni á útivelli. Var staðan markalaus eftir 90 mínútur og réðust úrslitin því í vítakeppni. Þar skoraði Leicester úr þremur spyrnum gegn engri.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka