Kevin De Bruyne verður ekki með Manchester City á morgun þegar liðið sækir Newcastle heim í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Belginn snjalli glímir við meiðsli og Pep Guardiola knattspyrnustjóri City staðfesti fjarveru hans á fréttamannafundi núna í hádeginu.
Þá staðfesti Guardiola að miðjumaðurinn öflugi Rodri væri með slitið krossband í hné og myndi ekki leika meira á þessu keppnistímabili. Ljóst var fyrir að um alvarleg hnjámeiðsli væri að ræða hjá Spánverjanum sem hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá enska meistaraliðinu undanfarin ár.