David Raya, markvörður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er að glíma við smávægileg meiðsli.
Þetta tilkynnti Mikel Arteta, stjóri Arsenal, á blaðamannafundi eftir leik Arsenal og Bolton í 3. umferð enska deildabikarsins í vikunni.
Arteta vildi ekki fara út í nein smáatriði þegar kom að meiðslum Raya en ýjaði þó að því að hann yrði fjarverandi um helgina þegar Arsenal tekur á móti Leicester City í 6. umferð úrvalsdeildarinnar.
Raya, sem er 29 ára gamall, hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu en hann lék með liðinu á láni frá Brentford á síðustu leiktíð og gekk svo alfarið til liðs við Arsenal í sumar.
Arsenal hefur farið vel af stað á tímabilinu og er í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig, tveimur stigum minna en topplið Manchester City.