Manchester United tók á móti Tottenham á Old Trafford vellinum í Manchester í dag. Leikurinn var hluti af sjöttu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta og endaði hann með sigri Tottenham, 3:0.
Eftir sigurinn er Tottenham í 8. sæti deildarinnar með tíu stig en Manchester United situr í því 12. með sjö stig.
Leikurinn fór afskaplega fjörlega af stað en fyrsta markið kom á þriðju mínútu og voru það gestirnir sem skoruðu það. Brennan Johnson kom þá boltanum í netið eftir frábæran sprett og fyrirgjöf frá hollenska miðverðinum Micky Van de Ven.
Johnson var nálægt því að skora annað mark sitt þegar hann átti skot í stöng á 20. mínútu leiksins.
Alejandro Garnacho fékk hættulegasta færi heimamanna í fyrri hálfleik þegar hann átti hörkuskot í stöngina eftir fyrirgjöf frá Marcus Rashford á 37. mínútu.
Tveimur mínútum síðar slapp Timo Werner einn í gegn frá miðju vallarins en Þjóðverjinn hafði of mikinn tíma til að hugsa hvernig hann ætti að klára færið og lét Andre Onana, markvörð Manchester United, verja frá sér.
Á 42. mínútu átti sér stað afar umdeilt atvik en þá fékk fyrirliði Manchester United, Bruno Fernandes, beint rautt spjald fyrir tæklingu á James Maddison. Fernandes virtist hafa runnið til í tæklingunni og fór hann hátt upp með sólann og sparkaði í legginn á Maddison. Í fyrstu þá leit þetta út fyrir að vera rautt spjald en í endursýningum mátti sjá að snertingin var ekki mikil. Dómurinn stóð þó engu síður og heimamenn manni færri.
Seinni hálfleikur var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar Dejan Kulusevski hafði tvöfaldað forystu Tottenham. Brennan Johnson slapp þá upp hægri kantinn og kom boltanum fyrir markið þar sem sænski landsliðsmaðurinn kom boltanum í netið framhjá Onana í markinu.
Dominik Solanke skoraði þriðja mark Tottenham á 77. mínútu. Lucas Bergvall tók þá hornspyrnu sem rataði á kollinn á Pape Sarr sem flikkaði boltanum í hlaupaleiðina fyrir Solanke. Enski framherjinn tímasetti hlaupið sitt mjög vel, kom boltanum í netið og innsiglaði verðskuldaðan sigur Tottenham í dag.